Heimildir um örnefni

Sunnan við Klappartún (8) er Tjarnarkotstún (9). Tjarnarkot (10) fór í eyði nálægt aldamótum, en túnið lagðist undir Klöpp. Sunnan við þessi tún er allstór tjörn, sem heitir Flankastaðatjörn (1). Þar hefi ég séð þéttastar pöddur í vatni, að síldarátu ekki undanskilinni. Á malarkampinum milli tjarnar og sjávar sér enn fyrir rústum af gömlum sjómannabyrgjum. Það er útjaðar Flankastaðanausta (2); þau eru fáum föðmum sunnar. Þar stóðu tveir timburskúrar norðan við vörina, var annar (sá vestri) frá Klöpp, en hinn frá Flankastöðum (Austurbæ).

Heimild: Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; - Flankastaðir“,  Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-118.

Austan við skúrinn var lítill grasblettur, eins og tangi út í tjörnina; hét það Mikkuskott (3). Fram af naustunum, norðan megin við vörina, er Flankastaðafjara (4) (Austurbæjar); efst eru Austurbæjarklappir (5), tveir klettabálkar, sá efri hærri. Þeir eru norðan og vestan við vörina. Fremst í fjörunni er Austurbæjarhausinn (6), í laginu líkastur stórri heysátu, þangað var farið í Sölvafjöru. Skammt utan og sunnar er Vatnasker (7), beint út af vörinni, þar var einnig sölvatekja. Nokkur smásker eru þar sunnar, en nafnlaus, syðsta útskerið heitir Stórfiskur (8), það er alllangt rif, laust við land; fremst á því er hár hnúður, er heitir Stórfiskshausinn (9). 

Upplýsingar um örnefni gaf Ingibjörn Jónsson bóndi þar og svo Magnús Þórarinsson eins og annars staðar í hreppnum.

Á Flankastöðum hefur um langan aldur verið tvíbýli. Um aldamót stóðu báðir bæirnir saman á sama hólnum. Síðan voru þeir færðir í sundur, og eru Syðri-Flankastaðir nú komnir í eyði.

Kampurinn er að þynnast og færist til og lækkar. Virðist spurning, hvenær sjórinn sameinast Flankastaðatjörn. Mikil áhrif brims eru í Flankastaðavör, grjótið sargast og eyðist af eilífri breytingu. Á malarkampi móti Flankastaðatjörn (1) sér fyrir rústum af gömlum sjómannabyrgjum. Það er útjaðar Flankastaðanausta (2). En þau eru fáum föðmum sunnar. Austan við eystri skúrinn er lítill grasblettur eins og tangi út í tjörnina, og var það nefnt Mikkuskott (3). Þegar verið var að búa til tó með 3-5 teinum, höfðu þeir til þess tæki, sem nefnt var Mikka, og stóð hún þarna. Fram af naustum norðan varar er Flankastaðafjara (4) eða, Austurbæjarfjara (4a). Efst eru svo þar Austurbæjarklappir (5), tveir klettabálkar. Sá efri er hærri norðan og vestan við vörina. Fremst í fjörunni er Austurbæjarhausinn (6), líkastur stórri heysátu. Þangað var farið í sölvafjöru. Skammt utar og sunnar er Vatnasker (7), sem er beint út af vörinni. Þar voru og söl. Nokkur smásker þar sunnar eru nafnlaus.
Syðsta útskerið heitir Stórfiskur (8). Það er alllangt rif laust við land. Fremst á því er hár hnúkur, sem heitir Stórfiskshaus (9). Stórfiskur er út af Vesturbæjarvör (10). Sunnan við er Vesturbæjarfjara (11). Næst vörinni eru Vesturbæjarklappir (12). Þær eru ekki háar, en miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu leyti slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem heitir Vesturbæjarhaus (13). Langur tangi er þar norðvestur úr fjörunni. Var þar varasamt í fjörunni, þegar beygt var inn.
Norðan við ósinn inn á vörina var Stórfiskur, en að sunnan Þuríðarsker (14) og nokkrar lágar flúðir, sem koma upp um fjöru og er nefnt Breiður (15) . En næst ós að sunnan er lítið sker strýtumyndað, og heitir það Klakkur (16). Vörin er allbreið sandvík með bogadregnum kambi. Annar ós liggur að Flankastaðavör. Heitir hann Miðós (17), norðan við Stórfisk. Milli Vatnaskers og Austurbæjarhauss er Norðurós (18).
Efri-Ósvarða (19) er á háum hól uppi í heiði, en sú neðri var á klöpp ofan og sunnan við gamla Traðarkot. Það stóð í móa fyrir ofan Vesturbæjartún, en fór í eyði fyrir aldamót.
Merkin móti Sandgerði eru frá Marbakka. Liggur ós sunnan til við Stórfisk hér um bil í landsuður upp að Markagarði. Á honum er Markaþúfa. Línan var dregin yfir Sandgerðistjörn (20), svo í stefnu á Kríuvörðu (21) á Syðri-Breiðhól (21a). En að innanverðu eru merkin frá Tjarnarkotstjörn í þúfu á Vatnshól (22), svo við norðurhallandi Flankastaðastekk (23) ofan við ósvörðu og þaðan í Flankastaðaborg (24).
Á Vatnshól er varða, sem nefnd er Skólavarða (25). Ofan túns og vegar er Ólafarstekkur (26), ber orðið lítið á honum. Ef farið er beint frá honum upp í heiðina, er stór steinn með torfþúfu hjá, og heitir hann Stakisteinn (27). Norður af honum er stekkur, og þar er Flankastaðaborg. Þar ofar eru svo brúnir þær sömu og í Sandgerði.

Heimild: Örnefnastofnun. Ari Gíslason skráði. Heimildarmenn: Ingibjörn Jónsson, bóndi, Flankastöðum, og Magnús Þórarinsson. (Samlesið S.J.)


Athugasemdir Halldóru Ingibjörnsdóttur, Flankastöðum, var send örnefnalýsing Flankastaða eftir Ara Gíslason.

Hafði faðir hennar verið annar heimildarmanna Ara á sínum tíma. Halldóra las lýsinguna yfir, bar hana undir föðurbróður sinn, Arna Jónsson, og skráði fáeinar athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar.
Árni Jónsson er fæddur á Flankastöðum 1889 og ólst upp þar, í Vallarhúsum og á Slettabóli, svo að hann er vel kunnugur á þessum slóðum. Hann er bróðir Ingibjörns heitins Jónssonar, en móðir þeirra bræðra og Magnús Þórarinsson voru systkinabörn. Halldóra Ingibjörnsdóttir er fædd á Flankastöðum 1923 og hefur alltaf verið búsett þar.

Um landamerki Flankastaða vísast til Landamerkjabókar fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Stórfiskshaus (9) er nokkurs konar haus á skerinu, yztur og ber hæst. Ekki er þekkt nein skýring á nafninu Þuríðarsker (14). Það sést ekki lengur og er sokkið í sand. Kríuvarp var og er töluvert í grennd við Kríuvörðu (21), og mun hún eflaust bera nafn af því. Vatnshóll (22) er á milli Flankastaða og Flankastaðakots við austurenda Flankastaðatjarnar og milli Flankastaða og gamla barnaskólans ofan (austan) við Sandgerðistjörn. Rústir Flankastaðastekks (23) sjást enn. Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota hann. Flankastaðaborg (24) (stekkur) er rúst af smárétt með einu útskoti afhlöðnu (dilk). Skólavarða (25) stendur á hól rétt fyrir ofan (austan) gamla barnaskólann, sem lagður var niður 1937 eða ´38. Hlóðu skólakrakkarnir hana fyrir löngu, og þegar hrundi úr henni, lagfærðu þeir hana. Mjög er langt síðan Ólafarstekkur (26) var lagður niður. Halldóra veit ekkert um nafnið, er búin að gleyma, hvað amma hennar sagði þeim um stekkinn, en hún kom að Flankastöðum 1884. Stekkurinn norður af Stakasteini er Flankastaðastekkur.

Örnefnastofnun, 29. ágúst 1978, Sigríður Jóhannsdóttir.